Greinar

Rannsókn um birtingarmyndir dulinna fordóma og mismununar í garð innflytjenda á Íslandi 2012

Skýrsla um rannsókn á birtingarmyndum dulinna fordóma og mismununar í garð innflytjenda á Íslandi

Rannsóknin var unnin af Guðrúnu Pétursdóttur fyrir InterCultural Island árið 2012.

Rannsóknin var styrkt af Þróunarsjóði Innflytjendamála, Velferðarráðuneytinu.

Hér að neðan má sjá helstu niðurstöður rannsóknarinnar en skýrsluna í heild á pdf formi fá finna hér.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 93% þátttakenda rannsóknarinnar af erlendum uppruna höfðu upplifað einhverja birtingarmynd dulinna fordóma einu sinni eða oftar á því 14 daga tímabili sem þeir fylgdust með framkomu gagnvart sér. Aðeins 35,2% þeirra Íslendinga sem þátt tóku í rannsókninni hafði upplifað það sama gagnvart sér einu sinni eða oftar á jafn löngum tíma. Á þessum niðurstöðum var marktækur munur, sem gefur til kynna að hér sé ekki um tilviljun að ræða, heldur sé þessi munur á upplifunum Íslendinga og fólks af erlendum uppruna raunverulegur í samfélaginu.

Niðurstöðurnar sýna einnig að munurinn milli upplifana fólks af erlendum uppruna og íslenska viðmiðunarhópsins er breiður þegar horft er til fjölda slíkra upplifana og höfðu þannig ennþá 62,5% fólks af erlendum uppruna upplifað einhverja viðkomandi birtingarmynda fimm sinnum eða oftar á tímabilinu en aðeins 5,8% Íslendingana. Engir íslensku þátttakendanna hafði síðan upplifað slíka hegðun gagnvart sér 10 sinnum eða oftar eða 20 sinnum eða oftar á 14 daga tímabili á meðan 36,1% fólks af erlendum uppruna upplifðu slíka hegðun gagnvart sér 10 sinnum eða oftar og 15,2% upplifðu einhverja birtingarmynd dulinna fordóma gagnvart sér 20 sinnum eða oftar á 14 daga tímabili. Sú staðreynd að 62,5 % fólks af erlendum uppruna upplifi niðurlægjandi framkomu gagnvart sér fimm sinnum eða oftar á 14 daga tímabili eru alvarlegar niðurstöður – burtséð frá samanburði við íslenska þátttakendur.

Annað sem fram kemur í rannsókninni er að algengustu  birtingarmyndir dulinna fordóma eru þær sem eru aðeins augljósar þeim sem fyrir þeim verða en erfitt er að færa sönnur á gagnvart öðrum. Í rannsókninni kemur berlega í ljós að oftast upplifa þátttakendur viðkomandi framkomu gagnvart sér á vinnustaðnum.

Tilfinningarnar sem upplifuninni fylgja eru með örfáum undantekningum alltaf slæmar eða afar slæmar. Þessi þáttur rannsóknarinnar er mjög mikilvægur, þ.e. að vakin sé athygli á líðan fólks við slíkar aðstæður og því hvers vegna fordómar og mismunun í daglegu lífi fólks er alvarlegt mál og ekki eitthvað sem ber að taka sem sjálfsögðum hlut eða lítilvægum. Þannig er afar mikilvægt að mark sé tekið á þeim einstaklingum sem hér hafa svarað af bestu vitund og einlægni. Þátttakendur hafa sjálfir tjáð sig í þessari rannsókn um hverskonar hegðun þeir vildu gjarnan sjá gagnvart sér á Íslandi. Skilaboðin frá flestum þátttakendum fela í sér sambærilega ósk, það er „að fólk komi eðlilega fram við okkur og komi fram við okkur eins og það vill að við komum fram við sig“.   

Hugmyndir að aðgerðum til þess að bregðast við og vinna gegn hversdagsfordómum og mismunun gagnvart fólki af erlendum uppruna í daglegu lífi þess, sérstaklega á vinnustöðum.

1. Vinnustaðir eru þeir staðir þar sem helst næst til fullorðinna einstaklinga. Vinnustaðir eru einnig þeir staðir þar sem flestir þátttakendur þessarar rannsóknar af erlendum uppruna upplifðu oftast einhverja birtingarmynd dulinna fordóma eða mismununar. Eitthvað af þeim viðmótum sem þátttakendur í rannsókninni upplifðu, má rekja til vitundarleysis um líðan og aðstæður fólks af erlendum uppruna. Hér er mikilvægt að tilkomi fræðsla um samskipti almennt og hvernig ákveðin framkoma lætur öðru fólki líða. Fræðslan þyrfti einnig að taka á umfjöllun um hinar ólíku birtingarmyndir fordóma og mismununar en í hugum margra er aðeins um fordóma og mismunun að ræða ef lög um mismunun eru brotin eða ef beinu líkamlegu eða andlegu ofbeldi er beitt.

2. Fræðsla fyrir verkstjóra, deildarstjóra og aðra sem gegna yfirmannsstöðum. Hér þyrfti að leggja áherslu  á að gera yfirmönnum grein fyrir ábyrgð sinni varðandi viðhorf og framkomu gagnvart fólki af erlendum uppruna á vinnustaðnum. Einnig þyrfti að leggja áherslu á að kynna fyrir þeim ólíkar birtingarmyndir fordóma og mismununar svo þeir taki eftir og séu vakandi fyrir slíkum birtingarmyndum á vinnustaðnum.

3. Vinnustaðir (starfsfólk og yfirmenn í sameiningu) setji sér viðmið um samskipti, framkomu og daglegt viðmót auk þess að setja sér viðbragðsáætlun um viðbrögð ef út af þeim er vikið. Mörg atriði sem fram koma hér í þessari rannsókn sem duldir fordómar og mismunun eru ekki lögbrot eða brot á vinnurétti. Því getur verið erfitt að tilkynna eða bregðast við viðkomandi hegðun nema ef vinnustaðurinn hefur gefið út yfirlýsingu um hvað telst til óásættanlegrar hegðunar og hvernig skuli brugðist við ef starfsmenn verða varir við hana gagnvart sjálfum sér eða samstarfsfólki.

4. Stéttarfélög og trúnaðarmenn fái fræðslu þar sem vakin er meðvitund um ólíkar birtingarmyndir fordóma og mismununar. Mikilvægt er að hægt sé að tilkynna slíka framkomu eða atvik til trúnaðarmanns og að stéttarfélög bregðist við gagnvart vinnuveitendum ef slík atvik koma endurtekið upp gagnvart ákveðnum einstaklingum eða hópum. Starfsfólk þarf að vita af þessum möguleika og erlent starfsfólk þarf að vita af möguleika á að fá túlk á staðinn ef nauðsyn þykir til að leggja fram slíka tilkynningu. Hér er mikilvægt að hafa í huga sérstaklega framkomu/atvik sem gætu talist „lítilvæg“ í hugum einstaklinga ríkjandi hópsins, sem upplifa þau sjaldan eða aldrei og gera sér þess vegna ekki grein fyrir alvöru þeirra. Því er afar mikilvægt að yfirmenn, trúnaðarmenn og starfsfólk stéttarfélaga taki tilkynningar um slíkt alvarlega.

5. Auka samskipti milli einstaklinga og hópa á vinnustaðnum. Hér væri t.d.  möguleiki að gefa starfsfólki ákveðin verkefni þar sem fólk af íslenskum og erlendum uppruna þarf að hafa samskipti við að leysa verkefnin í sameiningu. Einnig mætti skipuleggja starfsmannafundi sem eru skipulagðir þannig að fólk fái tækifæri til að kynnast betur og brjóta þannig niður staðalmyndir og ranghugmyndir um samstarfsfólkið. Auk þess gætu almenn samskiptanámskeið fyrir vinnustaði gagnast vel ef niðurstöður þessarar rannsóknar eru sérstaklega hafðar í huga við skipulagningu námskeiðsins.  

6. Hannaður verði upplýsingabæklingur sem dreift væri á vinnustaði og stéttarfélög þar sem fram kæmu lýsingar á birtingarmyndum hversdagsfordóma og mismununar og þar sem fólki væri einnig gefnar hugmyndir um ólíkar leiðir til að bregðast við slíkri framkomu gagnvart sjálfum sér eða ef þeir verða vitni að fordómafullum yfirlýsingum eða hegðun gagnvart öðrum.

7. Fræðsla í grunn- og framhaldsskólum. Varðandi yngri einstaklinga sem ekki næst til á vinnustöðum er skólinn og frístundastarf helsti vettvangur vitundarvakningar. Aðferðirnar til að ná til þessara hópa eru vissulega ólíkar og svo margvíslegar að skýrsla þessi er ekki réttur vettvangur til að útskýra mögulegar leiðir. Mikilvægast er í þessu samhengi að gera fjölmenningarlega kennslu að skyldufagi í kennaramenntun auk þess sem starfandi kennarar fái tækifæri til að bæta við sig þekkingu og aukinni meðvitund á endurmenntunarnámskeiðum fyrir kennara. Ekki síður er mikilvægt að slík þekking nái til kennara iðn- og starfsmenntunar.

Lokaorð

Niðurstöður rannsóknarinnar sem settar eru fram hér í þessari skýrslu sýna að hátt hlutfall fólks af erlendum uppruna, búsettu á Íslandi upplifir reglulega í sínu daglega lífi einhverjar birtingarmyndir dulinna fordóma eða svokallaðra hversdagsfordóma og mismununar. Næstum allir (93%)  þátttakenda í rannsókninni af erlendum uppruna upplifðu einhverja tegund þess virðingarleysis og niðurlægingar sem hér er kannað einu sinni eða oftar á 14 daga tímabili, 62,5% þeirra höfðu upplifað slíka hegðun gagnvart sér fimm sinnum eða oftar og rúmlega 15,2% þátttakenda af erlendum uppruna hafði upplifað slíkt 20 sinnum eða oftar á sama tímabili. Ef 62,5% einstaklinga af erlendum uppruna upplifa fordómafulla hegðun gagnvart sér allt frá fimm  til 120 sinnum á 14 daga tímabili hlýtur það að teljast hluti af daglegu lífi, þ.e. hversdagsupplifun. 

Lýsing þátttakenda á tilfinningum sínum við sambærilegar upplifanir sýna að ekki er hér um einelti eða tilviljunarkenndar einstaklingsupplifanir að ræða heldur kerfisbundið, flókið og margþætt ferli sem er viðhaldið með aðgerðum og aðgerðaleysi meirihlutahópsins. Valdahlutföllum milli hópa er þannig viðhaldið í gegnum félagsmótun og með stöðugri endurnýjun í gegnum fjölmiðla og aðra samskiptamiðla, stöðluðum ímyndum, skoðunum og framsetningu raunveruleika sem réttlætir óbreytt ástand. Meðlimir meirihlutahópsins tala stundum um það óréttlæti sem pólitísk rétthugsun feli í sér, frelsisskerðinguna sem felst í því að „mega ekki“ skrifa, segja eða gera það sem þeim sýnist við og um þann sem þeim sýnist. Hér kemur ástæðan berlega í ljós; það er vegna þess að ákveðin hegðun og framkoma veldur gífurlegri vanlíðan hjá þeim hópum og einstaklingum sem fyrir henni verða, síendurtekið og stöðugt í sínu daglega lífi.

Af svörunum má dæma að flest tilfelli hversdagsfordóma eða mismununar eiga sér stað á vinnustað og gefur það tilefni til frekari rannsókna á aðferðum og leiðum til að bæta meðvitund, samstöðu og samskipti á vinnustöðum. Áhugavert væri að rannsaka frekar hvort viðkomandi upplifun á sér frekar stað í ákveðnum atvinnugreinum og áhrif yfirmanna og verkstjóra á samskipti milli íslenskra og erlendra starfsmanna. ICI hefur nú þegar hafið verkefni á vegum Leonardo áætlunarinnar þar sem fjölþjóðlegur samstarfshópur mun vinna að því að setja saman hugmyndir að mögulegum menntunar/fræðsluúrræðum til að vinna gegn hversdagsfordómum á vinnustöðum.

Mikilvægt er að tekið sé mark á lýsingum þátttakenda rannsóknarinnar á líðan sinni við þær aðstæður þegar þeir upplifa hversdagsfordóma og að ekki sé gert lítið úr þeirri líðan þó aðstæðurnar geti þótt “lítilvægar” í augum þeirra sem sjaldan eða aldrei upplifa þær í sínu daglega lífi. Aðeins með því móti að taka mark á því þegar fólk einlæglega lýsir ítrekaðri slæmri líðan sinni við viðkomandi aðstæður, er möguleiki á breytingum. Í framhaldi af þessari rannsókn er því fyrsta skrefið að vekja fólk til meðvitundar um afleiðingar framkomu sinnar gagnvart fólki af erlendum uppruna, benda á leiðir til þess að bregðast við og að sýna fólki af erlendum uppruna á Íslandi að vilji sé fyrir hendi til að breyta viðhorfum og hegðun gagnvart þeim til batnaðar. 

Summary

The main findings of the study show that 93% of participants with non-Icelandic background experienced some form of hidden prejudice and discrimination once or more during the 14 day period they were asked to observe other people’s behaviour towards them. Only 35,2% of the Icelandic participants had the same experience once or more during the same time period. The results demonstrate that there is a significant difference between non-Icelanders and Icelanders, which indicates that this is not a coincidence, but that the difference between the experiences of each group is real. The results also show that the difference between participants with non-Icelandic background and the Icelandic control group gets notably wider when we look at the number of experiences they had, where 62,5% of participants with non-Icelandic background experienced some form of hidden prejudice and discrimination five times or more during the time period, compared to only 5,8% of the Icelandic group. The fact that 62,5% of participants with non-Icelandic background experience humiliating and disrespectful behaviour towards them five times or more during a 14 day period is an alarming finding, independent of the comparison to the Icelandic participants.

The most common manifestations of everyday discrimination are the ones that are only visible to those who experience them but who are difficult to „prove“ to others. The study shows that participants mostly experience the discriminative behavior at their workplace.

The feelings that participants describe in connection with the behavior towards them is always negative or very negative.  This part of the outcomes is very important, that attention is given to why hidden forms of prejudices or discrimination in peoples everyday life is an important problem and not something that should be taken for granted or seen as unimportant. It is very important to take seriously what the participants in the study who have taken the time to answer the questions the best they can and with sincerity. The participants have expressed their wishes about what kind of behavior they would wish to experience towards them here in Iceland. The message is clear:“That people treat us in a normal way, that they treat us the same way as they want us to treat them”.

Til baka

Til baka