Nýtt fólk – Nýjar hugmyndir. Frumkvöðlafræðsla fyrir innflytjendur.

Eins og kunnugt er þá hefur fjöldi innflytjenda aukist talsvert í Evrópu á síðustu árum. Oft er bent á vandamál sem þessari þróun fylgja og rætt um ógn sem ýmsir telja að steðji að ríkjum Evrópu af þessum sökum og er þá einkum horft til Þýskalands sem hefur tekið á móti stórum fjölda flóttafólks á síðustu árum. Að sjálfsögðu fylgja því ýmsar áskoranir þegar mikill fjöldi einstaklinga sest að í nýju landi á stuttum tíma. Sagan kennir okkur hins vegar að auðvelt er að mæta þessum áskorunum ef vel er staðið að móttöku flóttafólks og innflytjenda almennt. Sjaldnar er rætt um þann gífurlega ávinning sem koma innflytjenda og flóttafólks færir samfélaginu sem flutt er til. Staðreyndin er sú innflytjendur koma með ómetanlega menntun, reynslu og þekkingu í farteskinu, sem því miður er oftar en ekki vannýtt og vanmetin í nýju landi.

Í sept./okt. 2016 stóð InterCultural Iceland fyrir frumkvöðlasmiðju, sem sérstaklega var ætluð innflytjendum. Ástæðan fyrir því að sérstaklega var horft til þessa hóps var ekki að þessi hópur þyrfti sérstaka hjálp eða aðstoð, heldur einmitt sú sérstaka þekking, færni og reynsla sem hann óneytanlega hefur. Ekki var ljóst fyrir fram hvernig viðtökur verkefnið fengi, en eftirspurnin reyndist mun meiri en gert var ráð fyrir. Í smiðjunni unnu innflytjendur í hópum að því að finna og þróa viðskiptahugmyndir, setja raunhæf markmið, greina markaðinn og gera markaðslegar áætlanir og vinna einfalda fjárhagsáætlun. Smiðjan var þátttakendum að kostnaðarlausu, en verkefnið naut stuðnings Þróunarsjóðs innflytjendamála sem heyrir undir Velferðarráðuneytið.

Stefnt var að því að halda smiðju fyrir 20-25 þátttakendur, en 42 skráðu sig upphaflega til leiks.  25 var boðið að taka þátt og var þá gert ráð fyrir að ákveðinn hluti myndi heltast úr lestinni, t.d. vegna veikinda eða annarra orsaka.  Við val á þátttakendum var einkum tekið mið af því að viðkomandi væri ekki nú þegar í rekstri og hefði ekki mikla reynslu á því sviði, enda smiðjan hugsuð sem skapandi hugmyndaleit og hvatning til að skoða möguleikann á að skapa sér tekjur með því að stofna til starfsemi.

Eins og fram kemur í lokaskýrslu verkefnisins var smiðjan mjög vel heppnuð og fer ekki á milli mála að það er mikið verk að vinna í framtíðinni. Markmiðið hlýtur að vera að koma auga á og finna leiðir til að menntun og reynsla innflytjenda nýtist sem best, sjálfum þeim og samfélaginu öllu til heilla.

Lokaskýrslu verkefnisins með lýsingu á smiðjunni og niðurstððum matsskýrslu má finna hér

Allar glærur sem notaðar voru á smiðjunni má finna hér (smiðjan var haldin á ensku)

Forsnið (Template) sem sent var nemendum (pdf. skjal) má finna hér