Greinar

Er öll umræða góð?

Morgunblaðið 16.11.2006

Guðrún Pétursdóttir

Er öll umræða góð?

Eftir að hafa vaknað nokkra morgna í röð við umræðurnar um “innflytjendavandamálið” á Bylgjunni, skipti ég yfir á aðra útvarpsstöð. Það er of erfitt að byrja daginn með óbragð í munninum og hnút í maganum og finnast maður slegin niður eftir margra ára forvarnarvinnu gegn fordómum á Íslandi.

Ég er ekki ein um þennan hnút. Hann er miklu stærri og verri hjá fólki af erlendum uppruna sem hér býr. Sumir skilja umræðuna ekki alveg, aðrir skilja hana mjög vel. Þeir skilja að það er verið að ræða hvort þeir séu ákjósanlegir íbúar þessa lands, að þeir séu á einhvern hátt álitnir hættulegir íslensku samfélagi, að þeir séu vandamál og óvelkomin ógn í augum sumra alþingismanna og hluta þjóðarinnar. Það er ekki þægilegt að búa í samfélagi þar sem umræðan snýst um það, hvort viðvera mans eigi rétt á sér eða ekki. Það er ekkert skrýtið að fólk fái hnút í magann, kvíða og óöryggi og velti fyrir sér hvort það sé gott fyrir börnin þeirra að alast upp við þessi neikvæðu viðhorf í þeirra garð.

 

Í umræðuþáttum undangenginna vikna virðast allir viðmælendur sammála um að öll umræða sé góð. Ef við veltum fyrir okkur þessari staðhæfingu þá verður okkur ljóst að svo er alls ekki. Það er alls ekki sama hvernig umræða um ákveðin málefni fer fram. Við þekkjum fjölda umræðuefna, sem engum fjölmiðli dytti í hug að fara af stað með, vegna þess að þeim er ljóst að ekki öll umræða er góð. Umræða sem bitnar beinlínis á ákveðnum hópum samfélagsins er ekki viðurkennd sem góð. Við færum aldrei að ræða í fjölmiðlum kosti fíkniefnaneyslu, alveg sama hversu margir “kjósendur” væru til í að ræða fíkniefnamál á jákvæðum nótum. Við ræðum ekki um sjálfsvíg, ofbeldi, einelti, barnaklám o.s.frv. á jákvæðum nótum í fjölmiðlum. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn eru sammála um að það væri hættulegt og að jákvæð umræða gæti beinlínis fjölgað slíkum tilfellum og haft særandi áhrif á marga einstaklinga í samfélaginu. Við ræðum ekki heldur (lengur) um það hvort ýmsir minnihlutahópar samfélagsins séu óæskileg byrgði á samfélaginu, jafnvel þótt við vitum að fjöldi fordómafulls fólks sé á þerri skoðun. Það er þegjandi samþykki fjölmiðlafólks og stjórnmálamanna að slík umræða yki fordóma gagnvart þeim einstaklingum sem tilheyra viðkomandi minnihlutahópum. En nú kveður við allt annan tón. Þegar umræðuefnið er innflytjendur, þá er öll umræða góð. Í fjölmiðlum birtast háttsettir menn í samfélaginu og tjá neikvæð viðhorf og bera út hræðsluáróður gangvart einum ákveðnum minnihlutahóp. Þetta er svo grafalvarlegt mál, sem getur haft stórhættulegar afleiðingar fyrir þá útlendinga sem hér búa að þeir stjórnmálamenn, sem þessari umræðu stýra verða að hugsa sig um tvisvar og íhuga vandlega ábyrgð sína sem áhrifamenn í samfélaginu áður en þeir fara af stað í atkvæðasöfnun af þessu tagi.

Umræða þar sem háttsettir einstaklingar ala markvisst á ótta og neikvæðni gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum er hættuleg. Við þekkjum öll slík dæmi úr mannkynssögunni.  Hún er hættuleg samfélaginu í heild og hún er sértaklega hættuleg einstaklingum sem þessum hópum tilheyra. Rökin um að ekki sé verið að tala um einstaklingana (sem enginn virðist að hafa neitt á móti) heldur fjöldann, er rökleysa og gerir hættuna ekkert minni. Ekki er hikað við að gefa upp rangar upplýsingar í þessari áróðursherferð, eins og t.d. þegar þingmaður Frjálslyndaflokksins sagði í umræðuþætti að Ísland hafi hæsta hlutfall innflytjenda í Evrópu. Á Íslandi var hlutfallið 4,6% í lok ársins 2005, í Þýskalandi var hlutfallið 8,8 % , 8,5% í Danmörku. Miðað við fjölgun innflytjenda á Íslandi árið 2006 má búast við að hlutfallið verði u.þ.b. 6,5% í lok ársins 2006. Hins vegar mun innflytjendum í öðrum löndum einnig fjölga enda taka öll önnur lönd í Evrópu við fjölda flóttamanna og hælisleitenda á ári hverju en það gerir Ísland ekki. Það er því hreinn hræðsluáróður sem á sér stað þegar fullyrðingar af þessu tagi koma fram.

Ég vil því kalla eftir umræðu um hið raunverulega vandamál –þjóðernishyggju, fordóma og neikvæð viðhorf gagnvart fólki af erlendum uppruna á Íslandi. Hvernig getum við aukið víðsýni og nýtt fjölbreytileikann? Hvernig getum við komið í veg fyrir að fordómar og gamlar þjóðernishugmyndir hindri framþróun landsins? Hverjir eru kostir þessa fjölbreytta samfélags sem hér hefur myndast? Hvernig væri íslenskt samfélag statt ef enginn hefði fengist til að flytja hingað og taka þátt í uppbyggingunni? Hvernig getum við tryggt jafnan rétt allra í þessu fjölbreytta samfélagi? Hvernig getum við kennt börnunum okkar að meta fólk af mannkostum þess en ekki uppruna eða þjóðerni? Hvernig getum við tryggt að áfram fáist fólk hér til starfa erlendis frá? Hvernig getum við tryggt að íbúar þessa lands finni fyrir samkennd og velvilja hver til annars en ekki andúð vegna mismunandi uppruna?

Þetta eru nokkrar spurningar sem við ættum að spyrja okkur – í stað þess að velta okkur upp úr ímynduðu vandamáli, sem enginn sér nema þeir sem álíta “ætthreina” Íslendinga að einhverju leiti betri eða merkilegri manneskjur en aðra heimsbúa.

Til baka