Greinar

Fjölmenningarleg hæfni - nauðsyn í nútíma samfélagi

Tímaritið Málfríður
Guðrún Pétursdóttir

Fjölmenningarleg hæfni – nauðsyn í nútímasamfélagi?

Þegar fyrst var farið að ræða um fjölmenningarlega kennslu í Evrópu var fyrst og fremst verið að ræða um sérkennslu fyrir innflytjendur og hvernig þeir gætu samlagast samfélaginu. Smám saman breyttust áherslurnar og farið var að tala um aðlögun innflytjenda og áhersla lögð á að kenna nemendum um ólíka þjóðmenningu og nemendur af erlendum uppruna gjarnan gerðir fulltrúar ákveðinnar þjóðmenningar. Fjölmenningarleg kennsla snerist lengi vel aðeins um kennslu innflytjenda, meirihlutahópurinn var ekki talinn þurfa breyttar kennsluáherslur þrátt fyrir gífurlegar samfélagslegar breytingar í allri Evrópu. Á 9. áratugnum átti sér stað mikilvæg umræða í Evrópu í kringum hugtakið “fjölmenningarleg kennsla”. Þessi umræða snerist að mestu leyti um  hugmyndafræði og markmið fjölmenningarlegrar kennslu og þær þjóðfélagslegu breytingar sem kölluðu eftir fjölmenningarlegri hæfni allra íbúa fjölmenningarsamfélagsins. 

Á undanförnum árum hefur umræðan um fjölmenningarlega kennslu tekið enn nýja stefnu. Meiri áhersla er nú lögð á kennsluhætti og hlutverk kennarans við að styrkja fjölmenningarlega hæfni nemenda og tryggja um leið jafnan aðgang allra að lærdómsferlinu. Fjölmenningarleg kennsla er ekki lengur sérkennsla fyrir innflytjendur heldur snýr hún að og gagnast öllum nemendum. Í eftirfarandi grein mun ég leitast við að kynna í grófum dráttum þær áherslur, sem hafa verið hvað mest áberandi í evrópskri umræðu um fjölmenningarlega kennslu á undanförnum árum.

 

Þótt ýmsar stefnur og straumar í samhengi við fjölmenningarlega kennslu hafi verið þróaðar í Evrópu á undanförnum áratug, má segja að sameiginlegt yfirmarkmið þeirra flestra í dag sé að allir nemendur öðlist svokallaða fjölmenningarlega hæfni (intercultural competence) þ.e. hæfni til að lifa og starfa í fjölbreyttu/fjömenningarlegu samfélagi nútímans. Ekki aðeins fjölbreyttu hvað varðar uppruna eða þjóðerni íbúanna, heldur fjölbreyttu hvað varðar hæfni, áhugamál, þekkingu, getu, efnahag, menntun, lífviðhorf og gildismat svo eitthvað sé nefnt. Aukið flæði upplýsinga í gegnum ýmiskonar miðla, hefur m.a. gert það að verkum að hugtakið “menning” hefur öðlast mun víðari merkingu en aðeins siðir og venjur ákveðinna þjóðernishópa. Allir bekkir eru í raun fjölmenningarlegir þar sem nemendur búa við ólíka heimamenningu, alast upp við ólík uppeldisskilyrði, efnahag, fjölskyldumynstur o.s.frv.

Það er nóg að skoða atvinnuauglýsingarnar til að sjá hvaða hæfni er krafist af starfsfólki flestra fyrirtækja og stofnanna í fjölmenningarlegum samfélögum nútímans. Oft er fyrst krafist einhverrar prófgraðu en síðan koma þættir eins og samvinnuhæfni, samskiptahæfni, sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði. Með sífellt fjölbreyttari vinnustöðum verður krafan um hæfni til að geta unnið með hverjum sem er, miðlað upplýsingum og nýtt ólíka hæfni allra, sífellt háværari. Starfsmenn geta ekki leyft sér að neita að vinna með einhverjum af því hann er karl eða kona, gamall eða ungur, ómenntaður, fatlaður, samkynhneigður eða útlendingur. Fjölmenningarleg hæfni felst í því að læra að takast á við þennan fjölbeytileika á jákvæðan hátt og sjá hann sem kost en ekki sem vandamál. 

Spurningarnar sem kennarar standa frammi fyrir varðandi fjölmenningarlega kennslu  í dag eru því í meginatriðum eftirfarandi: 

- Hvernig geta kennarar allra námsgreina, styrkt og aukið fjölmenningarlega hæfni nemenda sinna, þ.e. hæfni til að búa og starfa í fjölbreyttu / fjölmenningarlegu upplýsingasamfélagi nútímans? Hvaða kennsluaðferðir henta best?

og hins vegar:

- Hvernig geta kennarar mismunandi skólastiga og mismunandi námsgreina skapað þessum fjölbreytta nemendahópi jöfn skilyrði og aðgang að lærdómsferlinu? Skilyrði þar sem einnig þeir sem ekki hentar hefðbundnar kennsluaðferðir (m.a. vegna tungumálaskilnings) fá tækifæri til að læra, þar sem allir nemendur eru uppspretta þekkingar, þar sem ólíkur bakgrunnur og hæfni kemur að gagni, skilyrði þar sem virkni og þátttaka allra er tryggð og þar sem fjölbreytileikinn verður kostur en ekki vandamál.

Margir evrópskir uppeldisfræðingar og kennarar höfðu um árabil leitað að aferðum sem gætu komið að gagni við fjölmenningarlega kennslu, aðferðum, sem gætu gagnast við að ná þessum ofantöldu markmiðum.  Fljótlega var ljóst að samvirkt nám hentaði vel til að auka félagslega færni nemenda almennt, brjóta niður staðalmyndir um ákveðna minnihlutahópa og vinna þannig gegn fordómum, til að gefa nemendum færi á að skilja að flesta hluti má skoða út frá ólíkum sjónarhornum og að mögulegt er að leysa ágreining á friðsamlegan hátt.

Elizabeth Cohen, félagsfræðingur við Stanford University byrjaði rannsóknir sínar fyrir um 25 árum og var markmið hennar að finna út hvaða félagslegir þættir gætu legið að baki því að sumum nemendum gengi ver í skólanum en öðrum, þrátt fyrir góða “akademíska” greind eins og hún kallar það þegar nemendur eiga ekki við neina greindarskerðingu að etja. Hún setti fram þá kenningu að staða (status) nemenda innan bekkjarins eða skólans gæti haft afgerandi áhrif á það hvort nemandinn fær aðgang að lærdómsferlinu. Hún, eins og margir aðrir kennslufræðingar hafði komist að þeirri niðurstöðu að virkni nemenda, samvinna og þátttaka í samvinnu jók mjög dýpri skilning þeirra á viðfangsefninu. Hún fullyrðir í raun á forsendum rannsókna sinna að því meira sem nemandi fær tækifæri til að tala um viðfangsefnið, því meira lærir hann. Hún horfði sérstaklega til nemenda sem ekki höfðu ensku sem móðurmál eða  voru af erlendum uppruna. Eftir að hafa fylgst með nemendum í samvinnunámi um árabil komst hún að þeirri niðurstöðu að jafnvel í hópavinnu fengju ákveðnir nemendur ekki aðgang að verkefnunum og var í raun (oft ómeðvitað) haldið frá verkefninu sem hópnum var ætlað að leysa. Þeir töluðu minna og ef þeir töluðu eða reyndu að taka þátt í samstarfinu, var eins og aðrir nemendur heyrðu ekki í þeim. Það var einfaldlega ekki gert ráð fyrir að þessir nemendur hefðu neitt til málanna að leggja og að lokum gáfust þeir upp. Þeir urðu ýmist þöglir og afskiptalausir eða reyndu að trufla samstarfið sem þeir höfðu hvort sem er ekki aðgang að. Cohen kallar þessa nemendur lágstöðunemendur.

Kenningar Cohen ganga í megin atriðum út á það hvernig skapa megi skilyrði í bekk þannig að allir nemendur í fjölbreyttum nemendahópi hafi jöfn tækifæri til að læra. Aðferðina kallar hún “Complex instruction” (Margþætt fyrirmæli á íslensku) en grunnhugtökin í kenningu hennar eru:  samskipti, staða og fjölgreind. Með því að hanna mjög skipulögð samvinnuverkefni þar sem lögð er áhersla á mikilvægi ólíkrar hæfni og með því að beita því sem Cohen kallar “stöðumeðferð” getur kennarinn haft áhrif á stöðu nemenda innan bekkjarins og virkjað þá sem annars væru óvirkir áhorfendur.

Hollenski kennsluráðgjafinn, Peter Batelaan  ásamt teymi kennara og uppeldisfræðinga frá ýmsum Evrópulöndum var fyrstur til að flytja kenningar Cohen til Evrópu og tengja þær umræðu um fjölmenningarlega kennslu.

Rannsóknir og kenningar Cohen tengdust upphaflega ekki fjölmenningarlegri kennslu en það sem kenningar hennar og fjölmenningarleg kennsla eiga sameiginlegt er að leitað er leiða til að auka möguleika allra nemenda til að læra og dýpka þekkingu sína í fjölbreyttum nemendahópi án þess að gerðar séu minni “akademískar” kröfur til ákveðinna nemenda og án þess að getuskipta bekknum. Í stað þess að setja saman í hópa nemendur sem eru slakir á ákveðnu sviði og láta þeim í té auðveldari verkefni, eru sterkir og slakir nemendur á viðkomandi sviði einmitt settir saman í hóp og þeim ætlað að aðstoða hvern annan við verkefnin. Til þess að það beri árangur þurfa verkefnið vissulega að vera fjölbreytt og krefjast ólíkrar hæfni nemenda.

Það er svo sem enginn nýr sannleikur að því virkari þátttakendur sem  nemendur eru í lærdómsferlinu og því fleiri tækifæri sem þeir fá til að tala um það sem þeir eru að fást við, því dýpri verður skilningur þeirra á viðfangsefninu.

Spurningin er hins vegar hversu oft kennarar gefa nemendum sínum tækifæri til að læra á þennan hátt. Í hefðbundinni kennslustund er kennarinn virkur. Hann talar, útskýrir og skrifar á töfluna og er stundum eini virki einstaklingurinn í kennslustofunni. Nemendum er ætlað að sitja kyrrir, hlusta af athygli og muna það sem kennarinn sagði. Í sumum tilfellum er eina virkni nemandans fólgin í því að fylla út prófblaðið.

Eru ekki einmitt draumanemendur sérhvers kennara þeir sem sitja kyrrir, hlusta og muna það sem kennarinn segir?  En þessir “draumanemendur” eru hins vegar aðeins lítill hluti allra nemenda. Stórum hópi nemenda gagnast mun betur aðrar og virkari leiðir til að læra, ekki síst þeim sem hafa íslensku sem annað mál.

Hér hefur ekki verið sérstaklega fjallað um tungumálakennslu jafnvel þótt greinin birtist í tímariti samtaka tungumálakennara. Á ráðstefnu tungumálakennara í Noregi, þar sem ég hélt fyrirlestur um fjölmenningarlega kennslu, talaði ég heldur ekki sérstaklega um tungumálakennslu. Í lok erindis míns þar varpaði ég fram þeirri spurningu hvernig fjölmenningarleg kennsla tengdist þá tungumálakennslu fyrst ég hafði ekki minnst neitt á það sérstaklega í erindinu? Það stóð ekki á svarinu. Fjölmenningarleg kennsla hefur með kennslu allra námsgreina á öllum skólastigum að gera og allir kennarar geta haft áhrif á fjölmenningarlega hæfni nemenda sinna með því einu að haga kennslu sinni á þann hátt að nemendur séu allir virkir þátttakendur og samskipti eigi sér stað milli ólíkra einstaklinga. Ekki síst í tungumálakennslu, sem snýst jú um samskipti.

Til baka