Námskeið fyrir túlka

Fræðsla og námskeið fyrir túlka

Til að tryggja fagmennsku allra túlka ICI býður fyrirtækið upp á fræðslunámskeið sem öllum túlkum, sem starfa fyrir fyrirtækið er skylt að sækja áður en þeir hefja störf.

Byrjendanámskeið I og II eru haldin nokkrum sinnum á ári en það fer eftir fjölda þeirra sem sækjast eftir starfi sem túlkar hversu oft þau eru haldin. Námskeiðin eru haldin um helgar og er kennt allan daginn frá kl. 10.00 -18.00.  Á námskeiðinu er farið nákvæmlega yfir siða-og vinnureglur túlka, framkoma og hegðun túlks er æfð með hutverkaleikjum og einnig er fjallað ítarlega um álitamál sem upp kunna að koma við túlkun.

Framhaldsnámskeið eru haldin 5-6 sinnum yfir árið og er á þeim farið ítarlega yfir ákveðna þætti túlkunar.

Túlkarnir vinna á framhaldsnámskeiðunum t.d. að því í sameiningu að fullvinna orðalista á ákveðnum sviðum (heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta o.s.frv.) en einnig koma góðir gestir frá ýmsum stofnunum í heimsókn og ræða sína hlið málsins og hvaða kröfur þeir gera til túlka.

ICI gerir miklar kröfur til þeirra túlka sem starfa fyrir fyrirtækið og eru í góðu sambandi við notendur þjónustunnar um endurgjöf, bæði varðandi það sem vel er gert og það sem betur má fara.